Search
  • Vinir Reykjadals

Draumurinn um lóð varð að veruleika

Updated: Mar 31, 2020

Eftirfarandi grein skrifaði Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona í Reykjadal sumarið 2018:

"Draumur um lóð

Reykjadalur er staðsettur í Mosfellsdalnum sem skartar sínu fegursta á sumrin. Í nánasta nágrenni við sumarbúðirnar okkar í Reykjadal má finna hóla, fjöll, læki, ár svo eitthvað sé nefnt. Reykjadalur er líka heppinn með granna sem bjóða gestum sumarbúðanna gjarnan til sín. Við fáum að kíkja í Dalsgarð í litríka og dásamlega lyktandi rósa ræktun. Á milli þess sem við lyktum af rósahafinu fáum við að smakka á ljúffengum jarðarberjum. Í bakgarðinum hjá einum nágranna okkar má finna leynigarðinn okkar en þar förum við í allskyns ævintýraleiki. Leitum af álfum, förum í útileiki og hendum stöng í lækinn og freistum þess að veiða í soðið.

Hin einu sönnu amma og afi Reykjadals búa í Sigtúni. Þangað röltum við gjarnan á leið okkar í fjársjóðsleit við Mosfellskirkju, gefum hestunum brauðmola og endum í kakói og kexi á Sigrúni.

Á Hraðastöðum er flottur dýragarður. Þar erum við boðin velkomin og fáum að kynnast mörgum dýrum. Klöppum kanínum, litlum kettlingum og kiðlingum. Oft á tíðum langar okkur að taka dýrin með okkur tilbaka í Reykjadal en við vitum að þeim líður best heima á Hraðastöðum.

Undanfarin ár höfum við verið svo lánsöm að fá aðstoð með útisvæðið okkar. Við höfum fengið að gjöf eldstæði þar sem við höldum gjarnan brennu, syngjum brekkusöng og grillum okkur sykurpúða. Við eigum líka frábæra hestaaðstöðu þar sem gestir Reykjadals fá tækifæri til þess að skella sér á hestbak.

Okkur er annt um alla vini okkar sem koma í sumarbúðirnar og á hverju ári bætast nýir vinir í hópinn með ólíkar þarfir. Síðastliðið sumar fengum við að gjöf hjólastólarólu sem er umvafin litríkum fallvarnarhellum. Þessi gjöf leiddi til þess að við fórum að horfa á útisvæðið okkar. Virkilega horfa á það. Þar sáum við meðal annars dekkjarólur, lúin sandkassa og ójafna lóð.

Við ákváðum að við þyrftum að fara að krafti í uppbyggingu á útisvæðinu okkar. Útisvæði sem væri aðgengilegt öllum. Við fengum í lið með okkur landslagsarkitektinn Ingu Rut Gylfadóttur sem teiknaði upp drauma útisvæði fyrir Reykjadal. Litríkt útisvæði með allskyns leiktækjum, aðgengileg öllum.

Framkvæmdir af draumaútisvæðinu okkar eru hafnar. Reykjadalur er vinmargur staður. Fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar hafa lagt okkur lið við að byggja upp draumalóðina okkar.

Góðir hlutir gerast hægt og verkefnið er kostnaðarsamt og því mun lóðin verða byggð upp í áföngum. Allur stuðningur við verkefnið er ómetanlegur og færir okkur skrefinu nær draumalóðinni okkar, aðgengilegri fyrir alla vini okkar.“

Margt hefur gerst á útisvæðinu okkar síðan þessi grein var skrifuð. Ólafur Jónsson eða Óli Jóns eins og hann er kallaður safnaði rúmum þremur milljónum króna í tengslum við útgáfu plötunnar Bjarta Bros. Söfnunarféð var notað til uppbyggingar í kringum sundlaug. Heiti potturinn okkar var færður út og pallur byggður í kring um hann.

Dominos pizza gaf rúmlega fimm milljónir króna sem var ágóði af sölu góðgerðarpizzunnar. Þær voru notaðar til uppbyggingar á útisvæðinu.

Nú er kominn nýr sparkvöllur, fleiri fallvarnarhellur, ærlsabelgur og stór pallur er bæði út af íþróttasal og matsal. Við erum afskaplega stolt og ánægð með hvernig til hefur tekist. Við erum með aðgengilega útiaðstöðu sem allir okkar gestir geta notið. Það er einstakt að finna þá velvild sem fólk sýnir Reykjadal. Það er magnað hvað hægt er að gera þegar fólk tekur saman höndum.

Takk fyrir að láta drauma okkar um lóð rætast.

Nú dreymir okkur um að útrýma biðlistum og geta boðið öllum sem þess kjósa að koma til okkar í Reykjadal.


29 views0 comments