Draumarnir rætast!

Síðastliðið sumar fóru sjö félagar sem allir hafa komið í Reykjadal til Gautaborgar að heimsækja sumarbúðirnar í Ågrenska. Með í för voru sjö starfsmenn Reykjadals en hópurinn fékk styrk frá Erasmus+ til ferðarinnar.

Hópurinn skemmti sér konunglega og aðstaðan í Ågrenska var til fyrirmyndar. Aðstaðan og aðbúnaðurinn í Ågrenska er engu lík og við leyfum okkur að hugsa stórt. Við viljum geta boðið upp á svipaða aðstöðu. Við viljum að fötlun sé engin hindrun. Öll börn og ungmenni eiga rétt á að eiga ógleymanlega upplifun, skemmta sér og njóta lífsins. Draumur okkar er að Reykjadalur sé staðurinn til þess.  

 

Ferðin til Gautaborgar var einstök á allan hátt. Félagarnir sjö eru allir hreyfihamlaðir og nota hjólastól. Þeir voru flestir að fara í fyrsta sinn erlendis án foreldra sinna. Hópurinn fór meðal annars í Tívolíið í Liseberg þar sem flestir tóku „salíbunu“ í rússíbananum, aftur og aftur. Ferðalangarnir sýndu gestum og starfsfólki Ågrenska einnig hvernig á að halda kvöldvöku að hætti Reykjadals, en myndband af því má sjá á Instagramsíðu Reykjadals.

„Við viljum halda áfram að láta svona einstaka hluti gerast. Við viljum láta draumana rætast. Eins og staðan er núna er biðlistinn í sumarbúðirnar í Reykjadal of langur. 60 einstaklingar fengu ekki pláss núna í sumar. Okkar stærsti draumur er að útrýma þeim biðlista. Það er brýnt en jafnframt flókið verkefni.“

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona í Reykjadal